Miðstöð í lýðheilsuvísindum (MLV) er umsjónaraðili fyrir þverfræðilegt nám í lýðheilsuvísindum sem fer fram í samstarfi við öll fræðasvið Háskóla Íslands (HÍ). Miðstöðin er einnig rannsóknarstofnun HÍ varðandi lýðheilsu. Auk kennara MLV koma að kennslunni kennarar frá öðrum deildum HÍ og frá innlendum og erlendum stofnunum.

Starfsfólk og kennarar í lýðheilsuvísindum hafa undanfarin ár séð sjálfir um að keyra lokaverkefni nemenda inn í Turnitin Feedback Studio til að skima eftir samsvörun við áður útgefna texta og nemendaritgerðir. Þetta hefur þýtt mikla vinnu fyrir þá sem hafa aðgang að Turnitin.

Á fundi MLV með Sigurbjörgu Jóhannesdóttur, sem er umsjónaraðili Turnitin fyrir HÍ, kom í ljós eindreginn vilji MLV til að breyta því fyrirkomulagi sem hefur þróast á skilum í deildinni. Kennarar með aðgang og þekkingu á Turnitin hafa einnig verið að keyra verkefni fyrir aðra kennara í gegnum vefsvæði https://turnitin.com, óháð því hvort það eru lokaverkefni eða ekki.

Sigurbjörg sýndi kennurum hvernig aðrar deildir og fræðasvið eru með lokaverkefnisskil sín. Skilin eru mismunandi en það eru alltaf nemendur sjálfir sem sjá um að skima verkefnin sín í Turnitin.

Niðurstaða fundarins var að MLV ætlar að setja upp einn Moodle vef fyrir þau tvö til þrjú námskeiðsnúmer sem eru á lokaverkefnum við deildina. Það þýðir að allir nemendur sem eru skráðir í lokaverkefnið og allir leiðbeinendur fá sjálfkrafa aðgang að Moodle. Um leið og búið er til Turnitin skilahólf inni í námskeiðinu fá þeir allir einnig sjálfkrafa aðgang að Turnitin. Þeir geta notað þann aðgang inni í Moodle en einnig farið bakdyramegin inn í gegnum https://turnitin.com. HÍ- netfangið og lykilorðið (fyrir Ugluna) á að virka inni á vefsvæðinu en ef ekki þá er auðvelt í Login-glugganum að láta eyða lykilorðinu og búa til nýtt (þ.e. inni á turnitin.com). Það þarf ekki að hugsa um lykilorð eða aðgang á meðan verið er að nota Turnitin inni í Moodle því þá er það HÍ-aðgangurinn sem gildir.

Egill Karlsson, verkefnastjóri hjá MLV, mun sjá um að koma Moodle vefnum af stað, setja upp Turnitin skilahólf og fá aðstoð frá Sigurbjörgu við að sameina námskeiðsnúmer inn í einn Moodle vef, setja upp Turnitin skilaverkefnahólf sem nemendur geta notað í gegnum allt ritunarferlið sjálfir til að skoða samsvörun og hvernig þeim gengur að nota eigin orð með tilvísun til fræðimanna og fleira.

MLV hefur jafnframt áhuga á því að nýta Moodle svæðið til að koma upplýsingum um lokaverkefnin og akademísk skrif til nemenda . Sigurbjörg bauð kennurunum kennslu á Feedback Studio svo þeir geti notað það til að gefa nemendum endurgjöf. Kennarar eiga eftir að taka ákvörðun um hvort þeir vilji nýta endurgjafahluta kerfisins til þessarar endurgjafar. Auðvelt er að skipta skilahólfinu upp þannig að nemendur myndu byrja á að skila inn rannsóknaráætlun, svo útgáfu 1, 2, … og að lokum lokaútgáfu ritgerðarinnar.